Ég heiti Sóley Elíasdóttir og mín helstu afrek sem íþróttamanneskja eru að hafa stundað ballet sem barn, vera landvættur og að hafa lært mjög ung á skíði. Foreldrar mínir voru í skíðaklúbb sem heitir Eldborg og karlarnir í þessum góða skíðahópi drösluðu tveimur traktorum upp í Bláfjöll, nánar tiltekið í Eldborgargil, og þar voru tveimur toglyftum komið upp sem voru drifnar áfram af traktorunum. Í gilinu var líka þessi fíni skáli sem við nutum þess að fara inn í og borða nestið okkar. Allt í kringum skíðaklúbbinn Eldborg var einstaklega skemmtilegt og mikið ævintýri sem ég er afar þakklát fyrir að hafa fengið að taka þátt í. Mest vil ég þakka pabba mínum fyrir að hafa kennt mér á skíði og að finna gleðina í því að vera úti að leika mér í snjónum.

Á unglingsárunum fór ég að æfa skíði hjá ÍR. Þó að verðlaunagripirnir hafi ekki beðið í hrönnum þá skipti það engu máli því mér finnst ekkert skemmtilegra en að vera úti að leika mér í snjó og á skíðum.

Mér finnst líka gaman á fjallahjólinu mínu, stinga mér til sunds í sundgallanum í einhverju fallegu vatni og einnig að hlaupa. Verð samt að viðurkenna að hlaupin eru ekki minn styrkleiki þó svo að ég láti mig hafa það. Ég fæ verki í hnén ef ég passa mig ekki á hlaupum og er þess vegan að leggja sérstaka áherslu á styrktaræfingar núna. Í raun finnst mér samt líka gaman að hlaupa og þá sérstaklega þegar ég finn ekki mikið til. Því jú sársaukinn er óumflýjanlegur en eymdin er val.  - ( Harúki Murakami )  

 Sóley