Ég var í skólaliðinu í blaki í Hagaskóla í gamla daga og  þar með er upptalinn minn keppnisíþróttaferill þar til ég skráði mig í FÍ Landvætti haustið 2018, rúmlega fimmtug!  Það var því stórt stökk fyrir mig og í byrjun var ég alveg viss um þetta væri alls ekki fyrir mig; ég þoldi t.d. ekki hlaup, fannst þau svo leiðinleg og hafði aldrei dýft tánni í kalt stöðuvatn, hvað þá synt í því. Ég var þó búin að eiga hjól í nokkur ár og gönguskíði en aldrei farið á nein skiðanámskeið. Ég var eiginlega búin að ákveða í huga mér að ég skyldi bara skrá mig  í þetta ársprógramm fyrir áeggjan vinkonu minnar en myndi síðan hætta, ætlaði bara rétt að tékka á þessu. Raunin varð önnur, ég hóf reglulegar æfingar strax um haustið og hef ekki hætt síðan. Grunnþol mitt var þó reyndar ágætt þar sem ég hef í mörg ár verið dugleg að ganga og hafði verið í World Class m.a. hjá Þórhöllu Andrésdóttur í hádegistímum og í gamla daga hjá Magnúsi Scheving. 

Það var og eins nýr heimur opnaðist fyrir mér þegar ég hóf að æfa reglulega utandyra, ég lít hreyfingu öðrum augum en áður sem og landið okkar. Það fylgir svo mikil gleði að hreyfa sig, það þarf ekkert endilega að vera svo mikið en gott að gera eitthvað helst á hverjum degi. Þetta er besta geðlyf sem til er!  Nú er ég alltaf að hugsa um hvar sé gott að skíða, hjóla, synda, ganga eða hlaupa og er dugleg að skipuleggja fram í tímann æfingar og ferðalög með skemmtilegu vinum mínum. Ég hreyfi mig að meðaltali 5-6 sinnum í viku, mjög oft úti en stundum fer ég í þol- og styrktarþjálfun og svo er ég í Afródansi í Kramhúsinu sem er alveg frábær hreyfing, bæði skemmtilegt og krefjandi.

Hrönn