Við setjum okkur reglulega markmið í hreyfingu og útivist og sumum náum við meðan öðrum er frestað til betri tíma.
Í vetur hafa skipst á skin og skúrir, bara svona rétt eins og í veðrinu.
Í haust settum við þrjár okkur markmið um að hlaupa saman maraþon í Kaupmannahöfn í maí 2022. Við bókuðum hótel og gerðum hlaupaplan. Eftir ágætis byrjun á æfingaferlinu urðu meiðsli og flensur til þess að bara ein af okkur fór í gegnum æfingarprógrammið og hljóp svo maraþonið. Kannski er það ekkert svo slæmur árangur, ein af þremur.
Hrönn var að hlaupa sitt fyrsta maraþon. Áður hefur hún sannarlega afgreitt erfiðari áskoranir ss Laugavegshlaupið, Fossavatnsgönguna á brotnu gönguskíði og Jökulsárhlaupið í 4 gráðum og norðan rigningu. En í Köben gekk allt upp. Veðrið var gott, heilsan var góð og okkar kona hljóp með bros á vör alla leiðina. Sannur sigurvegari þar á ferð og við hinar erum að springa úr stolti.
Hrönn Marinósdóttir
Hrönn og Sóley fóru í mikla ævintýraferð með FÍ Landkönnuðum til Noregs þar sem skíðað var við Harðangursjökul og nágrenni og gist í skálum norska ferðafélagsins. Það var mjög gaman að vera úti í náttúrunni fjarri mannabyggðum í nokkra daga og jafnvel án rafmagns og internets á stundum.
Sóley tók í framhaldinu þátt í stærsta skíðagöngumóti þeirra Norðmanna, Birkebeiner og skemmti sér stórvel þessa 54 km þrátt fyrir að brautin hafi verið mjög erfið á köflum enda elskar hún Sóley hvíta gullið meira en flest annað, að eigin sögn.
Sóley Elíasdóttir
Karen hóf veturinn á að taka þátt í London maraþoninu sem hafði verið frestað um tvö ár. Stóru maraþonin eru sannarlega eins og langt og gott partý, tæpir 5 tímar (já það þarf að fá út úr þessu) af góðu stuði. Undirbúningur fyrir hlaupið fól meðal annars í sér Laugavegshlaup og fleiri skemmtilegar áskoranir svo flöt brautin framhjá höllu drottningar hljómaði sem leikur einn. Eftir á kannski ekki alveg leikur en örlítil bæting, ómæld hamingja og til að toppa allt, engin íþróttameiðsl. Allt sem kona vill fá út úr slíkum degi.
Karen Þórólfsdóttir London marathon
Varðandi stóra markmiðið þá er draumastaðan að vera alltaf í formi til að taka þátt í hálfmaraþoni á morgun og finna ekkert fyrir því að skottast 10 kílómetrana þegar vinkonurnar hringja.
Við erum ánægðar með göngurnar sem Sælar hafa staðið fyrir undanfarið, við höfum gengið á fjöll í nágrenni við Reykjavík og boðið öllum vinum okkar að taka þátt.
Nú er sumarið hafið og fullt af spennandi útvistarævintýrum rétt handan við hornið. Munið að njóta.