Svörtu pardusapíurnar“ vita fátt skemmtilegra en að hreyfa sig úti í náttúrunni. Það er svo mikil útrás og gleði sem fylgir því að vera úti að leika og í rauninni mjög mikil hvíld því hugurinn er þá ekki annarsstaðar á meðan. Í sumar tókum við þátt í Hlaupahátíð Vestfjarða sem haldin er árlega um miðjan júlí.

  Hlaupahátíða á Vestfjörðum - brautarskoðun

 Í brautarskoðun fyrir hjólakeppnina, Sóley Elíasdóttir, Halldóra Vífilsdóttir, Karen Þórólfsdóttir, Anna Soffía Sigurðardóttir og Hrönn Marinósdóttir.

Í boði var að taka taka þríþraut, sund, hlaup og hjól en svo var líka hægt að taka bara eina keppni og þá mismunandi vegalengdir. Veðrið var stórkostlegt þótt spáin hafi dagana á undan ekki beinlínis verið kræsileg. Það sem er líka svo gaman við mót eins og þetta er félagslegi þátturinn en við erum að hitta aðra vini sem við höfum kynnst í gegnum hreyfinguna, t.d. Landvættaþrautirnar og gleðjast með þeim fyrir og eftir keppnir.

Hlaupahátíð á Vestfjörðum - undirbúningur

Hverja keppni þarf að undirbúa vel og passa að allur búnaður sé í lagi

Hrönn og Karen skráðu sig í þríþrautina sem fólst í að synda í ísköldum sjónum við Ísafjarðarhöfn heila 500 metra, hjóla Vesturgötuhjólreiðar 55 km frá Dýrafirði yfir í Arnarfjörð, upp og niður fjöll og dali, ein skemmtilegast hjólakeppni landsins en jafnframt mjög krefjandi og svo hlaupa 24 km frá Stapadalsbænum um ýtuveg Elísar Kjarnas að Svalvogum.

Hlaupahátíð á Vestfjörðum - SPP og Hallgrímur
 Íþróttafélagið SPP ásamt meistara Hallgrími Jónssyni tilbúin í fyrstu þraut hátíðarinnar

Hlaupahátíðin tók þrjá daga, föstudagur var sund, laugardagur hjól og svo hlaup á sunnudeginum. Mótið var mjög vel skipulagt og við nutum gestrisni heimamanna í botn m.a. svelgdum í okkar belgískum vöfflum á Simbakaffi, slökuðum á í sundlauginni á Þingeyri og borðuðum á Vagninum á Flateyri æðislegan mat. Við vorum með tveimur öðrum vinkonum Önnu Soffíu og Halldóru og ferðin var mikið ævintýri frá upphafi til enda, alveg „djegguð“ ferð :=). Fjölskylda Önnu Soffíu á lítið hús á Þingeyri og þar gistum við í góðu yfirlæti. Halldóra er hönnuður og sá t.d. um að útbúa morgunverðinn okkar.

Hlaupahátíð á Vestfjörðum - Morgunmatur

 Lekkerheit á palling

Sóley, Anna Soffía og Halldóra skráðu sig í hjólreiðakeppnina og stóðu sig allar mjög vel þrátt fyrir að tvær síðastnefndu hafa aldrei tekið þátt í svona erfðri hjólakeppni áður. Markmið þeirra var að njóta en ekki þjóta, þær stoppuðu til að taka myndir, voru með kaffi með sér og rækjusamlokur sem runnu ljúflega niður í pásunum- en úff hvað þessi hjólaleið tók á!

Vesturgatan, svo ævintýralega falleg leið.

 

Hrönn stóð sig rosavel í keppninni, lenti í öðru sæti í Vesturgötuhjólreiðunum í 40+ og í þriðja sæti kvenna í þríþrautinni. Tvisvar á palli og það í fyrsta sinn á ævinni. Karenu gekk líka vel og var ánægð með að klára keppnirnar því þegar heim var komið kom í ljós að hún var komin með Covid.

Hlaupahátíð á Vestfjörðum - SPP á palli

 Það fullkomnar þátttökuna að komast á pall!

Eftir þetta mikla ævintýri tók við annað hjá Sóleyju og Hrönn sem fóru beinustu leið að hjóla með leikfélögum sínum hjá Landkönnuðum þvers og kruss um Snæfellsnesið og verður sú ferð lengi í minnum höfð; æðislegar, krefjandi hjólaleiðir, dýrlegt verður, toppfélagsskapur og frábær leiðsögn hjá Brynhildi og Róberti. Meira um það næst!