Sóley og Hrönn eru alsælar og þakklátar fyrir að hafa heilsu til að taka þátt í Marcialonga gönguskíðakeppninni á Norður – Ítalíu. Karen komst því miður ekki með í þetta sinn.

Keppnin fór fram i lok janúar s.l. en um er að ræða 70 km alþjóðlegt skíðagöngumót, með um 7000 keppendum, undir Dólómítafjöllum. Sumir sem kepptu eru á meðal bestu skíðagöngumanna í heimi. Brautin  er ægifögur, hún liggur um dali og í gegnum ltölsk smáþorp þar sem þorpsbúar börðu bjöllur, blésu í lúðra og hrópuðu til okkar forza forza og það veitt ekki af! Við skíðuðum um fallegu Trentino; héruðin Val di Fiemme og Val di Fassa og vá, hvað var gaman. Ógleymanlegt ævintýri í æðislegum félagsskap.

 

Við erum mjðg  þakklátar Einari Ólafssyni skíðagöngukennara  og miklum meistara fyrir heilræði, kennslu og hvatningu sem og Grétari, Jakobi, Helga og Diljá  sem líka eru skíðagöngukennarar og hjálpuðu okkur mikið.

Andlegt ferðalag og ævingangan

Það líkist ævigöngunni – lífinu sjálfu, að sumu leyti að taka þátt í mótum líkt og gönguskíðakeppninni í Marcialonga. Eins og í lífinu hittir maður á langri leið  alls kyns fólk, og ýmislegt gerist. Oft eitthvað alveg óvænt;  til dæmis dettur einhver ofan á mann eins og gerðist í tilfelli Sóleyjar sem var á niðurleið  í einhverri brekkunni. Það var smá skellur! Þóra Elísabet sem er læknir, fór að  stumra yfir karli sem hafði dottið illa, það tafði hana og varð til þess að hún náði ekki tímamörkunum og hætti keppni.  Hún var reyndar nýkomin úr löngu hjólaferðalagi um Kúbu og var því ekki eins úthvíld og við hinar. Kristín Gígja  lærði að maður þarf að vera ákveðin  til að komast áfram á mannmörgum mótum svo sumir sem eru frekari hreinlega ryðji manni ekki um koll. Hrönn braut báða stafina sína á miðri leið í æsingi og datt endurtekið á sömu mjöðmina í svellhálu brekkum  en eins og í lífinu þá er bara  ekkert annað í boði en að standa upp og reyna að læra af reynslunni. Hún sagði síðan Nönnu Björk sem var langfyrst í mark að hún ætlaði aldrei að gera þetta aftur en var fljót að skipa um skoðun. 😁

Ganga sem þessi er líka andlegt ferðalag. Þú ert ein með sjálfri þér í margar klukkustundir  og þarft að takast á við hausinn á þér sem segir með reglulega millibili... hvaða rugl er í gangi hérna... þetta er einu of mikið, til hvers er ég að þessu?!

Dágóður skammtur af gleði

Að koma í mark er eins og að hafa  að hafa fengið stóra vinninginn; að hafa sigrað í lífinu :=)  Við  vinkonurnar vorum með góðan skammt af gleðihormónum fyrstu dagana á eftir. Stuðið í bænum Cavalese þar sem marklínan er, var mergjuð. Þótt það hafi verið mikið frost ,var mannmergð og mikil stemmning á aðal torginu.  Á pizzastaðnum okkar þar sem við borðuðum saman eftir mótið var svo mikið stuð að fólk dansaði uppá borðum. 

Við gefum Marcialonga eða marsinum langa okkur bestu meðmæli.

 

https://youtu.be/clBOlszYHHk