Við hittumst í gær til að „preppa“ skíðin okkar fyrir Fossavatnsgönguna sem fram fer um helgina á Ísafirði. Fossavatnið er stærsta gönguskíðamót landsins, sjá nánar hér www.fossavatn.is. Við undirbúum skíðin okkar sjálfar, gott er að smyrja þau nokkrum sinnum á ári og hér má sjá myndir og stutt videó um hvernig við förum að því. Sóley er með góðan bílskúr heima hjá sér, gott borð, gamalt straujárn og skrúfstykki. Við notum vax sem er brætt með straujárninu, sköfu til að skafa vaxið af og svo þarf að bursta vel yfir í lokin. Við förum 2-3 umferðir yfir hvert skíði og hreinsum skinnin með tusku og vökva sem við kaupum í sportbúðum en við erum á skinnskíðum og óhætt er að mæla með þeim. Okkur finnst mun skemmtilegra að strauja skíði en venjulegan fatnað!


 

 

 

 

Það er að ýmsu að huga dagana fyrir mót; við þurfum að passa að næra okkur vel, borða hollan mat, kjöt og fisk og kolvetni svo sem pasta; við leggjum áherslu á að sofa vel og hafa lítið æfingaálag þessa viku. Þá þarf að huga vel að klæðnaði í göngunni, við stefnum á að vera í svörtum spandex sem við kepptum einmitt í á Ísafirði fyrir 2 árum og má segja að hafa verið upphafið að okkar íþrótta- og vinkonufélagi. Sjá pistil um það hér á síðunni; https://saelar.is/blogs/sogur/upphaf-svortu-pardusapianna. Það er skylda að vera með  bakpoka í göngunni, hlýjan fatnað og passa að hafa nóg að drekka og borða. Orkugel og súkkulaði á borð við Snickers er í uppáhaldi hjá okkur. Aðalgangan fer fram á laugardaginn og það er uppselt í  50 km, 25 km og 12.5 km. Nú er að krossa fingur um að veðrið verði gott og fara að hlakka til. Þetta verður sko gaman.