Þetta er langt frá því að vera tæmandi listi en smá brot af okkar uppáhalds hlaupasvæðum. Það er mikilvægt að hafa æfingarnar skemmtilegar, félagsskapinn góðan og umhverfið fallegt.
Hvaleyrarvatn og nágrenni - Uppsveitir Hafnarfjarðar er í miklu uppáhaldi hjá okkur og þar mælum við okkur oft mót. Hringur kringum vatnið er uþb 2 km og fyrir þá sem eru að byrja að hlaupa er það mjög viðráðanlegt. Í hæðunum kringum vatnið er mikil skógrækt og þar eru svo skemmtilegir skógarstígar sem hægt er að þræða. Hamingjubrekkan sem hlaupin er í Hvítasunnuhlaupi Hauka stendur alltaf fyrir sínu á brekku æfingum. Svo er Stórhöfði þarna í nágrenninu og hann er auðvelt að toppa og njóta útsýnis til allra átta. Hringferð um Stórhöfðann er líka frábær, hraunjaðar með mosabreiðum og skógræktin sem gerir þetta svæði svo skjól gott og fallegt.
Vífilsstaðahlíð - okkar allra mest uppáhalds er að hittast við Maríuhellana, fara upp „Hobbitastíginn“, inn á Vífilsstaðahlíðina á móts við háspennulínuna. Þar í hlíðinni eru fallegustu skógarstígar landsins og þó víða væri leitað! Best í heimi.
Laugardalur - það er alltaf gott veður í Laugardalnum! Sælar hafa í gegnum árin verið í hlaupahópnum hennar Mörthu Ernstdóttur sem æfir alla þriðjudaga allt árið um kring í Laugardalnum. Í dalnum eru þægilegir stígar, aflíðandi brekkur og nóg pláss fyrir alla. Grasagarðurinn með sínum fallegu tjörnum og mjúku stígum er í algjörum sérflokki.
Öskjuhlíðin – er eins og Tardis, lítil að utan en stór að innan. Fallegir skógarstígar sem hlykkjast um hlíðina, brekkur til að spretta í og svo er Nauthólsvíkin við hliðina og fullkomið að skella sér í sjóinn eftir hlaup.
Heiðmörk – vinsælasta hlaupaleið landsins er mögulega Ríkishringurinn í Heiðmörk, 12 km skógarstígur. Best er að mæla sér mót á bílastæðinu við Helluval. Margir aðrir stígar eru á svæðinu og of langt er að telja upp hér en við mælum heilshugar með þeim öllum, stundum er gaman að fara bara eitthvert og sjá hvar maður endar.
Eitt að lokum:
Að heiman – best af öllu er að geta hlaupið af stað beint úr forstofunni heima. Við getum fullyrt að allir sem búa á höfuðborgarsvæðinu eru bara í nokkurra mínútna hlaupa færi frá náttúrunni. Strandlengja með fersku sjávarlofti, Laugardalur, Öskjuhlíð, Elliðaárdalur, Fossvogsdalur, Skógræktin í kringum Breiðholtið, möguleikarnir eru endalausir og óþrjótandi. Bara skella sér í skóna og skokka af stað.
Hlökkum til að sjá ykkur.