Tilfinningin að koma í mark í Laugavegshlaupinu eftir að hafa hlaupið tæplega 55 km leið um fjöll og firnindi er nánast ólýsanleg. Gleðin er svo mikil en líka auðmýkt og þakklæti yfir að þetta skyldi hafa tekist allt saman og við heilar á húfi því það er ekki sjálfgefið. Við vorum fljótar að gleyma öllu þessa mikla puði við að komast í mark og stirðleiki, þreyta, blöðrur, brotnar táneglur og smá bólgur hér og þar dagana á eftir eru smámunir miðað við þessa miklu upplifun sem hlaupið er.

Við vinkonurnar þrjár í SPP skráðum okkur til leiks í Laugavegshlaupið sl. janúar en aðeins tvær okkar luku keppni. Hrönn og Karen voru svo lánsamar að ná að klára en Sóley sem var búin að glíma við meiðsli á tímabilinu hætti keppni eftir að hafa hlaupið um 30 km. Það er ægilega súrt. Við vorum búnar að vera að æfa í marga mánuði með alls kyns hlaupum útum allar koppagrundir auk styrktar- og teygjuæfinga. Það gekk ýmislegt á á æfingatímabilinu eins og fram kom í síðasta pistli, sjá hér. Meiðsli sem Sóley var búin að vera að glíma við tóku sig upp aftur og heftu för og komu í veg fyrir að hún gæti æft eins mikið og reglulega og hún hafði sett sér markmið um í byrjun. Okkur finnst hún hafa sýnt mikið hugrekki að mæta samt til leiks og gera sitt besta.

Þetta var í fyrsta skipti sem við kepptum í últramaraþoni og líklega (vonandi) ekki það síðasta. :) Veðrið þennan dag var himneskt. Þetta var eins og í bestu Disneymynd, við blöstu ægifögur fjöll sykurhúðaðir fjallstoppar, jöklar, líparit og hrafntinna. Þetta hlýtur að vera fallegasta hlaupaleið í heimi. Við gáfum okkur samt ekki of mikinn tíma til að líta í kringum okkur og taka myndir því þegar verið er að hlaupa í svona landslagi er mikilvægt að fylgjast vel með hverju fótmáli. Við hlupum upp og niður hóla og hæðir, yfir snjóbreiður, sanda, möl og grjót, ár og læki og alltaf þurfti að halda dampi alla þessa leið nema rétt til að fylla á brúsana á drykkjarstöðvunum. Veðrið var mjög gott, eiginlega of gott en margir sem höfðu í hyggju að slá eigin tímamet frá fyrri hlaupum tókst það ekki og kenndu um miklum hita, sól og mótvindi en það blés á okkur seinni hluta leiðarinnar og stundum hressilega.

Það voru yfir 500 manns sem kepptu þennan dag og á leiðinni hittir maður því aðra hlaupara, og tekur þá  stundum aðra tali og fólk hjálpast að, t.d. hitti Hrönn konu í Jökultungunum sem var mjög lofthrædd svo þær leiddust hluta af leiðinni og Karen var með verkjatöflur í bakpokanum sem hrjáður hlaupari sem hafði tognað, þáði. Það var líka mjög gaman og hvetjandi að hitta göngugarpa sem löbbuðu í rólegheitum og margir voru duglegir að hvetja og hrópa til okkar hvatningarorðum sem gaf mikla orku. Alveg hreint dásamlegt.

Í Húsadal í Þórsmörk er markið og þar beið múgur og margmenni í sól og blíðu og mikil stemmning var við marklínuna þar sem æfingafélagarnir biðu. Þreyttar en sælar lögðumst við því á koddann  um kvöldið eftir langan dag og nú er næsta skref að plana næstu ævintýri. Meira síðar.