Rúmur mánuður er í Laugaveginn, 55 km fjallamaraþon sem liggur frá Landamannalaugum yfir í Þórsmörk. Spennan stigmagnast hjá okkur vinkonunum, tilhlökkunin er mjög mikil en kvíði hefur líka aðeins látið á sér kræla, þetta er langlengsta hlaup okkar til þessa.
Laugavegurinn er þekkt gönguleið á hálendinu; flestir ganga Laugaveginn á 4 dögum og gista í skálum á leiðinni en við ætlum að hlaupa, ásamt um 500 öðrum, þann 17. júlí nk. og tímamörkin fyrir hlaupið eru 9 klukkustundir og 15 mínútur til að fá skráðan tíma.
Laugavegshlaupið er eitt vinsælasta fjallahlaupið hér á landi, það seldist upp í það á tæpum hálftíma í vor en það er jafnframt eitt það erfiðasta. Karlar eru iðulega í meirihluta í últrahlaupum sem þessum víða um veröld en okkur skilst að á Íslandi séu konur mun fleiri en gengur og gerist sem er frábært!
Undanfarnar vikur og mánuði höfum við verið að undirbúa okkur fyrir keppnina en markmið okkar númer eitt, tvö og þrjú er að koma heilar í mark því við viljum geta hlaupið reglulega og án sársauka þar til við verðum níræðar amk! Það er merkilegt að í mörgum maraþonhlaupum er fólk á öllum aldri og margir eru eldri borgarar sem sýnir að hlaup eru fyrir alla, það þarf bara að æfa rétt.
Mikilvægt er að hafa hlaupaplanið markvisst þannig að líkamlega sértu í þínu besta hlaupaformi þegar stóra stundin rennur upp. Hrönn hefur verið að æfa með FÍ fjallahlaupum og Karen og Sóley æfa með Laugavegshópi Náttúruhlaupa. Það er líka mikilvægt að hafa hausinn í lagi, vera jákvæð, vera búin að kynna sér vel aðstæður, vera með rétta búnaðinn og næra sig vel. Sem betur fer höfum við aðgang að miklum snillingum, hlaupaþjálfurunum okkar, sem ávallt eru tilbúnir að ausa úr viskubrunnum sínum!
Við höfum miðað við að hlaupa að meðaltali 3-4 fjórum sinnum í viku undanfarna mánuði en taka hvíldarvikur inn á milli. Við gerum styrktaræfingar og reynum að vera mjög duglegar að teygja fyrir og eftir æfingar.
Það er ekki sjálfgefið að æfingaferli þar sem hlaupaálag eykst jafnt og þétt með hverri vikunni gangi eins og í sögu. Það þarf að skutla krökkum á æfingar, versla í matinn og mæta í vinnu. Svo lendir hundurinn í skurðaðgerð, pípulögn fer allt í einu að leka og fyrirtækið þitt flytur. Það koma upp veikindi, það eru bólusetningar, það bólgna hné og hælar, hraðsláttur í hjarta lætur á sér kræla. Framantalið er aðeins örlítið brot af því sem hefur flækst fyrir okkur síðustu vikur. Í þessu eins og öðru sem lífið færir okkur þurfum við að reyna eftir fremsta megni að vera skynsamar, æðrulausar og umfram allt auðmjúkar fyrir verkefnunum hverju sinni. Við tökum einn dag í einu, höfum gaman og gerum okkur besta.