Að stíga út fyrir þægindarammann

Allar erum við sammála um hve valdeflandi það er að taka þátt í félagsskap eins og Landvættum, að þora að stíga út fyrir sitt þægindabox og koma sjálfri sér á óvart með því að taka þátt í krefjandi íþróttamótum. Það getur verið mikil áskorun en gott að hafa í huga að maður er langoftast bara að keppa við sjálfan sig. Þakklæti og auðmýkt er oftast það fyrsta sem kemur upp í hugann hjá okkur, að hafa heilsu í að geta gert þetta. Við erum mjög meðvitaðar um að það  þarf að vinna í að hafa heilsuna góða og þess vegna æfum við að meðaltali 5-6 sinnum í hverri viku.

Árið 2019 náðum við því markmiði að verða Landvættir sem þýðir að við kláruðum fjórar krefjandi íþróttakeppnir, eina í hverjum landsfjórðungi á innan við 12 mánuðum. Eftir Fossavatnsgönguna á Ísafirði, 50 km gönguskíðakeppni, sem gekk mjög vel, kepptum við í byrjun sumars í 60 km fjallahjólakeppni sem kennd er við Bláa lónið, þar á eftir fórum við austur á land og tókum þátt í 2,5 km Urriðavatnsundinu og að lokum kepptum við í fjallahlaupakeppni, Jökulsárhlaupinu svokalla frá Dettifossi yfir í Ásbyrgi, alls 33 km leið. Síðan höfum við ekki hætt að hreyfa okkur. Lífið hefur breytt um svip. Það varð sannkölluð lífsstílsbreyting hjá okkur öllum þegar við skráðum okkur í Landvættina haustið 2018 og nú eru alltaf nýjar áskoranir í kortunum.