Það er mikið ævintýri að taka þátt í Fossavatnsgöngunni sem er stærsta skíðagöngumót á Íslandi og því eins konar uppskeruhátíð  þeirra sem stunda skíðagöngu hér á landi.  Í Fossavatninu er í boði að ganga mismunandi vegalengdir en þegar í mark er komið fara keppendur í íþróttamiðstöðina á Ísafirði til að gæða sér á kökum og kræsingum sem kvenfélagskonur eru búnar að hafa til og verðlaun eru afhent fyrir bestan árangur. Um kvöldið er svo slegið til heljarinnar fiskiveislu og dansiballs sem stendur frameftir kvöldi og er góð leið til að losna við harðsperrur. Við mælum heilshugar með Fossavatnsgöngu.

World Loppet mótaröðin

Fossavatnið er hluti af World Loppet sem er keðja skíðagöngumóta útum allan heim en margir eru að safna skíðagöngustimplum í World Loppet passana sina. Í Fossavatninu eru því útlendingar þátttakendur og við vorum svo heppnar að kynnast þríeyki frá Bandaríkjunum sem ferðast saman um heiminn og tekur þátt í skíðagöngumótum. Ken Maki er um áttrætt og er búinn að taka þátt í fjölda móta víða um heim, Debbie J. Thompson Croft er um fimmtugt og fékk afhentan verðlaunapening á Ísafirði fyrir að hafa klárað tíu World Loppet göngur og svo er það Jake McCusker, um þrítugt, rosa öflugur skiðakappi .

Við ætlum klárlega að hitta þau aftur því við erum líka að safna stimplum og vonandi eitt árið heimsækja þau til Bandaríkjanna og skíða í Ameríska Birkenbeiner í Wisconsin þar sem Kim og Jake eiga heima. Við hittum þau aftur í Reykjavík á Systrasamlaginu eftir keppni, skiptumst á keppnissögum, og tókum þessa mynd.

 

Hér hefst svo hrakfallasagan. Karen er búin að vera að glíma við meiðsli frá því hún datt í skíðaferð í Frakklandi í febrúar og komst því ekki með í Fossavatnið, því miður, en Hrönn og Sóley fyrir hönd SPP skráðu sig til leiks í 50 km skíðagöngu. Veðrið var nokkuð gott, hiti um núllgráður, nánast logn en töluverð þoka. Snjórinn var nokkuð gljúpur og sporið því stundum ekki nægilega öruggt. Sveinbjörn Sigurðsson, vinur okkar hjá Skíðagöngufélagi Hafnarfjarðar, setti rillur á skíðin okkar þarna um morguninn sem eiga að hjálpa í aðstæðum sem þessum. En við vorum  annars mjög vel undirbúnar; höfðum farið í brautarskoðun daginn áður og preppað skíðin okkar með alls kyns áburði sem átti að hjálpa okkur að massa mótið en við fengum aðstöðu til þess í kjallaranum hjá skíðagönguþjálfaranum okkar og meistaranum Einari Ólafssyni á Suðureyri. Við lögðum töluverða vinnu í þennan undirbúning eins og sést hér á myndinni af Sóley vera að preppa.

 

Við vorum vel úthvíldar og andlega tilbúnar í þessa hörkukeppni sem við vorum að taka þátt í í þriðja sinn en Fossavatnið  ásamt Birkebeinerennet í Noregi eru taldar erfiðastar í World Loppet mótaröðinni.

Það er alltaf lærdómur að taka þátt í svona mótum og það er ferðalagið að mótinu sjálfu en ekki úrslitin sem skipta mestu máli.

Við vorum í samfloti með tveimur vinkonum, Kristínu Gígju Einarsdóttur og Ágústu Valdísi Sverrisdóttur, og vorum búnar að leigja okkur hús á Flateyri þar sem fór mjög vel um okkur. Það var gaman að fagna með þeim í lokin.

Keppnin gekk ekki áfallalaust fyrir sig hjá okkur tveimur SPP píum.

Mottó Sóleyjar í íþróttakeppnum er að líða vel allan tímann og hafa gaman en sú var bara ekki raunin í þessari keppni. Sóley hafði lent í því um morguninn að gleyma bakbokanum sínum á bílastæðinu niðri á Ísafirði en það er skylda að skíða með bakpoka. Hún fékk því lánaðan alltof stórann bakpoka, eiginlega risa fjallgöngupoka, sem var nánast stærri en  bakið á henni, hjá kynninum sem var að ræsa út keppendur. Auk þess þurfti hún á síðustu stundu að redda sér öðrum gönguskíðastöfum þar sem strappinn utanum skíðastafina hennar týndist í rútunni á leið upp eftir og voru þeir því ónothæfir.  Upphaf göngunnar var því ekki alveg eins og ætlunin var. Þess utan komst  Sóley fljótlega af því að  hún hafði ekki sett nógu mikið af fatti undir skíðin og var því farin að spóla allverulega. Brosið hennar Sóleyjar var því aðeins farið að dofna þegar hér var komið við sögu. En ofan á þetta allt saman fór hjartslátturinn upp sem hefur stundum gerst hjá henni á ögurstundu. Það var dropinn sem fyllti mælinn og Sóley ákvað að hætta á miðri leið.  Hún fékk far með björgunarsveitarmönnum á vélsleða tilbaka og  var helsátt með sína skynsamlegu ákvörðun. Hrönn er líklega aðeins meiri þrjóskuhaus en Sóley og kláraði keppnina en það tók langan tíma eða um sex klukkustundir, því skinnin undan skíðunum losnuðu eitt af öðru með þeim afleiðingum að erfitt var að koma sér áfram. Hrönn skildi ekkert í því hvers vegna hún var alltaf á hausnum í minnstu brekkum en sá svo að skinnin undir skíðunum höfðu kuðlast. Hún fór því að beita nýstárlegri tækni við að komast áfram sem var að lyfta tánum upp og skíða á hælunum og það tókst eftir ótal byltur og smá grátur alein í þokunni uppi á heiði. Hrönn fékk fylgd björgunarsveitarinnar um tíma og klístur hjá vélsleðafólki sem hafði verið svo sætt að elta hana uppi. Á einni drykkjarstöðinni hitti hún starfsmanninn Gunnar og svo heppilega vildi til að hann var með klístur í vasanum sem hann átti sjálfur og hjálpaði henni að bera á. Sú saga gekk  síðan á ballinu um kvöldið að Gunnar hefði saxað hluta af skeggi sínum ofan á klístrið til að fá það til að festast betur. Hér er Hrönn með Gunnari nýja besta vini sínum og bjargvætti á Ísafirði eftir keppnina.

 

Það var sætt að komast í mark en Hrönn þurfti að tileinka sér nýtt göngulag  dagana á eftir því harðsperrurnar voru svakalegar svo vægt sé til orða tekið.

Það er ekkert Fossvatn án Bobba. Hann er aðalskipuleggjandi Fossavatnsins og hefur áður komið við sögu í ævintýrum okkar SPP.   Takk Bobbi og þið öll hin sem skipulögðuð þetta frábæra mót.