Við fundum ekki upp á vináttunni en við fundum hver aðra í sameiginlegri og einlægri gleði yfir að vera úti að leika; vetur, sumar, vor og haust. Við hvetjum hver aðra áfram, fögnum litlu sigrunum sem og þeim stóru. Stundum er erfiðasta stund dagsins að komast í hlaupaskóna og koma sér út úr húsi en það verður svo miklu auðveldara þegar vinkona þín er komin til að sækja þig, þú átt stefnumót í lauginni, í skíðabrekkunni eða bara hvar sem er, um að gera að hafa æfingarnar sem fjölbreyttastar. 

Við æfum saman nokkrum sinnum í viku, erum að gera alls konar, en aðallega hjóla, skíða, hlaupa og synda. Eitt af stóru markmiðunum núna er að hlaupa Laugaveginn sumarið 2020. Okkur finnst líka mjög gaman að fá fleiri með og erum allar búnar að kynnast frábæru fólki í gegnum alla þessa útiveru og ævintýri þvers og kruss um landið m.a. með Landkönnuðum FÍ, Skíðastjörnum, göngu og jógahópnum Læðunum og Hlaupahópnum hennar Mörthu Ernst og mörgum fleiri.