Haustið er tími breytinga. Ný árstíð, nýjar áherslur, nýjar áskoranir og við Sælar erum spenntar fyrir því sem koma skal þegar laufin falla og vindar fara að blása. Við settumst niður um helgina til að plana æfingar og mót næstu misserin. Áherslur eru svolítið ólíkar hjá okkur næstu vikurnar þar sem Hrönn er í mikilli vinnutörn fyrir kvikmyndahátíðina (https://riff.is) sem hefst 30. september, Sóley (https://soleyorganics.is) er að koma fyrirtækinu sínu fyrir í nýjum og glæsilegum húsakynnum úti á Granda og Karen er að undirbúa þátttöku í London Marathon sem fram fer 3. október nk. 

Svo margt spennandi sem hægt er að gera, vandi að velja úr öllu því sem er í boði. Þetta verður pottþétt spennandi haust og vetur! Við munum kynna á næstunni okkar áætlanir en t.d. langar okkur að blása til samhlaups fljótlega og bjóða ykkur öllum að vera með. 

Þann 11. september n.k. ætlum við að hlaupa Þórsgötuna – Vulcano Trail Run, 12 km fjallahlaup í Þórsmörk. Við hlökkum mikið til enda frábært fjallahlaup í fallegu umhverfi.

Við höfum verið að hlaupa hér og þar undanfarið til að undirbúa okkur. Dásamlegt alveg og það merkilega er að það þarf ekki að fara langt út fyrir borgarmörkin til þess að komast í fallegt umhverfi. Það er betra fyrir líkamann að hlaupa úti í náttúrunni á mjúkum malarstígum svo ekki sé talað um jákvæð áhrif þess að finna gróðurilminn og anda að sér tæra loftinu sem fylgir skóginum.

Áfram veginn og aldrei hætta að hreyfa sig.